Cristian Popa var skipaður aðstoðarframkvæmdastjóri Evrópska fjárfestingabankans fyrr á þessu ári. Í síðustu viku kom hann til Íslands til að skrifa undir samning um 125 milljóna evra lánveitingu til Landsvirkjunar vegna framkvæmda við Þeistareykjavirkjun.

70 milljóna evra lánveiting til Orkuveitu Reykjavíkur er einnig í pípunum. Samtals eru þessar lánveitingar jafnvirði 27 milljarða króna og eru þetta fyrstu lánveitingar bankans til íslenskra aðila síðan árið 2011.

Lána einnig til minni fyrirtækja

Popa segir að Evrópski fjárfestingasjóðurinn, systurfyrirtæki Evrópska fjárfestingabankans, sé í viðræðum við íslenska bankakerfið um fjármögnunarkosti fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki hér á landi. „Jafnvel þegar hagkerfi vaxa nokkuð hratt – eins og er staðan á Íslandi í dag – þá er sá vöxtur ekki sá sami þegar litið er á mismunandi hluta fyrirtækjageirans,“ segir Popa.

„Stærri fyrirtæki fá gjarna meiri lánveitingar og fá lánað á betri kjörum. Þó að lítil og meðalstór fyrirtæki skapi mörg störf og hafi mikilvæg hlutverk í virðiskeðjum, þá eru lánveitingar til þeirra stundum í takmörkuðum mæli. Við reynum að minnka þessi takmörk með því að veita staðbundnum bönkum fjármuni í gegnum Evrópska fjárfestingasjóðinn, sem þeir lána svo áfram til lítilla og meðalstórra fyrirtækja,“ segir hann.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .