Úrvalsvísitalan (OMXI6) lækkaði um 0,2% í dag og stóð við lok markaða í 633 stigum samkvæmt Markaðsvaktinni.

Úrvalsvísitalan stendur því í stað frá byrjun vikunnar og hefur sáralítið hreyfst í vikunni, hæst farið í 642 stig innan dags á mánudag og fór lægst í 626 stig innan dags á miðvikudag og aftur innan dags í dag. Undir lok markaða í dag hækkaði hún þó lítillega frá þeim botni.

Á markaðssíðu vb.is má sjá helstu breytingar einstakra félaga í Kauphöllinni en aðeins fimm félög hreyfðust í dag. Century Aluminum hækkaði um 7,7%, og leiddi þar með hækkanir annan daginn í röð, og Föroya banki hækkaði um 0,4% en Marel lækkaði um 2,7%, Bakkavör um 0,7% og Össur um 0,5%.

Þetta eru sömu félög og hafa hreyfst í vikunni eins og sjá má á töflunni hér að ofan. Þó hafði Icelandair Group hækkað lítillega á þriðjudag en sú hækkun núllaðist út á miðvikudag.

Viðmælandi Viðskiptablaðsins hafði aðeins eitt að segja þegar blaðið leitaði eftir viðhorfi hans um stöðu mála í Kauphöllinni; „Það er bara ekkert að frétta þaðan,“ sagði hann en reiknaði þó með að skuldabréfamarkaður myndi taka við sér fljótlega, þó gæti það tafist fram yfir stýrivaxtaákvörðun Seðlabankans þann 8. apríl n.k.

Hlutabréfaveltan í vikunni nam rétt rúmum milljarði sem er svo sem í takt við það sem verið hefur síðustu vikur og mánuði.

Mesta veltan var með bréf í Marel eða tæpar 770 milljónir króna. Þá var velta fyrir tæpar 182 milljónir króna með bréf í Össur en mun minni velta var með bréf í öðrum félögum.

Velta með skuldabréf var þó minni en það sem verið hefur síðustu vikur og mánuði. Að meðaltali hefur veltan verið á bilinu 9 – 14 milljarðar króna á dag en veltan hefur þó aðeins verið rúmar 5 – 5,5 milljarðar króna síðustu þrjá daga.