Úrvalsvísitalan hækkaði lítillega í vikunni sem nú er á enda eða um 1%.

Í lok síðustu viku stóð Úrvalsvísitalan í 644 stigum en við lok markaða í dag stóð hún í 659 stigum samkvæmt Markaðsvakt Mentis

Á myndinni hér til hliðar má sjá helstu hækkanir og lækkanir einstakra félaga í Kauphöllinni í vikunni.

Þar sést hvernig Bakkavör leiddi hækkanir vikunnar með því að hækka um 44%. Félagið hefur engu að síður lækkað um 87,7% frá áramótum en ekkert félag hefur hækkað í Kauphöllinni frá áramótum.

Þá hækkaði Atorka um 20% en hefur engu að síður lækkað um 93,4% frá áramótum. Á hluthafafundi í gær var samþykkt að afskrá félagið úr Kauphöllinni.

Þá lækkaði Century Aluminum mest allra félaga í vikunni eða um 43,3%. Þannig hefur félagið lækkað um 66,8% frá áramótum en rétt er að hafa í huga að í ágúst og september var félagið það eina sem hafði hækkað í Kauphöllinni frá áramótum.

Eimskipafélag Íslands, sem þó hækkaði um 9,6% í vikunni hefur lækkað mest allra félaga í Kauphöllinni frá áramótum eða um 96,4%.

54% vikuveltunnar með bréf í Marel

Heildarvelta með hlutabréf í vikunni var um 275 milljónir og hefur minnkað um 99,7% á einum mánuði samkvæmt tölum frá Markaðsvakt Mentis. Þá var veltan í síðustu viku rétt tæpar 400 milljónir en það var fyrsta vikan eftir að viðskiptabankarnir voru teknir út úr Kauphöllinni.

Mest var veltan með bréf í Marel eða rétt rúmar 150 milljónir sem er um 54% af heildarveltu vikunnar.

Þá var velta fyrir tæpar 50 milljónir í Össur, tæpar 22 milljónir í Icelandair Group og rúmar 14 milljónir með bréf í Century Aluminum.