Úrvalsvísitalan [ OMXI15 ] stendur nánast í stað eftir vikuna, á mánudagsmorgun stóð vísitalan 4.314 stigum við opnum markaða samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvakt Mentis en við lok markaða í dag stóð vísitalan í 4.287 stigum. Breytingin er innan við 0,1%.

Á myndinni hér til hliðar má sjá helstu hækkanir og lækkanir einstakra félaga í Kauphöllinni í vikunni sem nú er lokið.

Þar sést að Icelandair Group [ ICEAIR ] hefur hækkað en félagið birti uppgjör sem var umfram væntingar í byrjun vikunnar. Félagið hefur engu að síður lækkað um 29% það sem af er árinu.

Þá koma færeysku bankarnir Föroya banki [ FO-BANK ] og Eik banki [ FO-EIK ] sem báðir hækkuðu yfir 10% í vikunni. Eik banki hefur þó lækkað um tæp 48% frá áramótum en Föroya banki um rúm 12%.

Spron [ SPRON ] lækkaði mest allra félaga í vikunni en ef fer sem horfir verður félagið tekið af markaði von bráðar eftir að búið er að ganga frá sameiningu Spron og Kaupþings. Spron hefur lækkað um tæp 60% frá áramótum.

Svipuð velta og í síðustu viku

Velta með hlutabréf var um 11,5 milljarðar í vikunni sem er svipað og í vikunni áður þegar hún var um 12 milljarðar.

Mest var velta með bréf í Kaupþing [ KAUP ] eða um 3,1 milljarður (var um 6 milljarðar í síðustu viku) en félagið lækkaði um 0,6% í vikunni.

Þá var velta með bréf í Landsbankanum [ LAIS ] um 2,5 milljarðar, í Glitni [ GLB ] tæpir 2,4 milljarðar og í Exista [ EXISTA ] fyrir um 1,3 milljarða en nokkuð minni velta var með bréf í öðrum félögum.