Úrvalsvísitalan lækkaði töluvert í vikunni sem nú er á enda eða um 27%. Við lok markaða s.l. föstudag stóð vísitalan í 4.277 stigum en stóð við lok markaða í dag í 3.123 stigum samkvæmt Markaðsvakt Mentis.

Á myndinni hér til hliðar má sjá helstu hækkanir og lækkanir einstakra félaga í Kauphöllinni í vikunni. Athygli vekur hversu mörg félög lækka um tveggja stafa tölur.

Teymi var eina félagið í Kauphöllinni sem hækkaði í vikunni en félagið hækkaði um 16,7%. Teymi leiddi lækkanir síðustu viku og lækkaði um 14,3% og hefur lækkað um 76% frá áramótum.

Ekkert félag hefur hækkað frá áramótum.

Það þarf ekki að koma á óvart að Glitnir leiddi lækkanir vikunnar og lækkaði um 75,1% í vikunni. Þannig hefur félagið lækkað um 81,8% frá áramótum.

Glitnir er samt ekki það félag sem lækkað hefur mest frá áramótum því Eimskipafélagið hefur lækkað um 88,6% frá áramótum.

Töluverð velta með bréf í Landsbankanum

Velta með hlutabréf heldur áfram að aukast töluvert milli vikna og hefur verið að aukast síðustu vikurnar. Veltan var í vikunni um 77,2 milljarðar króna samkvæmt Markaðsvakt Mentis en var í síðustu viku 57,4 milljarðar.

Mest var veltan með bréf í Landsbankanum eða 37,7 milljarðar króna. Þar af voru 11,3 milljarðar í dag.

Þá var velta fyrir um 25,7 milljarða króna með bréf í Kaupþing, um 4,5 milljarðar með bréf í Straum, tæpir 3,9 milljarðar með bréf í Glitni og tæpir 1,3 milljarðar með bréf í Exista.