Úrvalsvísitalan [ OMXI15 ] hreyfðist lítið í vikunni sem nú er á enda. Við lok markaða s.l. föstudag stóð vísitalan í 4.287 stigum en stóð við lok markaða í dag í 4.207 stigum samkvæmt Markaðsvakt Mentis.

Það þýðir að hún hefur lækkað um 0,01%.

Á myndinni hér til hliðar má sjá helstu hækkanir og lækkanir einstakra félaga í Kauphöllinni í vikunni sem nú er lokið.

Þar sést að Teymi [ TEYMI ] er hástökkvari vikunnar en rétt er þó að taka fram að velta með bréf í félaginu í vikunni var aðeins um 1,3 milljónir í þremur viðskiptum þannig að ekki er mikil velta á bakvið hækkunina.

Þá hefur Teymi lækkað mest allra félaga í Kauphöllinni frá áramótum eða um 67,4%.

Þá hækkaði Century Aluminum [ CENX ] um 5,9% í vikunni en velta með bréf í félaginu var rúmar 260 milljónir. Þá er félagið það eina félagið í Kauphöllinni sem hefur hækkað frá áramótum eða um 20,4%.

Eik banki [ FO-EIK ] lækkaði mest allra félaga í vikunni eða um 14% en mestu munar um 9% lækkun félagsins s.l. þriðjudag þegar félagið lækkaði mjög hratt seinni part dags.

Velta með hlutabréf í Eik banka var þó ekki mikil í vikunni, um 460 milljónir en félagið hefur lækkað um 55% frá áramótum.

Töluvert minni velta milli vikna

Velta með hlutabréf var um 7,9 milljarðar króna sem er nokkuð minna en í síðustu viku þegar hún var 11,5 milljarðar og í vikunni þar áður um 12 milljarðar.

Líkt og í síðustu viku var mest velta með bréf í Kaupþing [ KAUP ] eða um 3,2 milljarðar sem er svipað og í síðustu viku en en félagið lækkaði um 1% í vikunni.

Þá var velta með bréf í Glitni [ GLB ] fyrir rúmlega 2,3 milljarða og í Landsbankanum [ LAIS ] fyrir  um 800 milljónir. en nokkuð minni velta var með bréf í öðrum félögum.