Úrvalsvísitalan hélt áfram að lækka þá tvo daga sem opið var í Kauphöllinni í þessari viku og lækkaði nú um 2,3% en hafði í síðustu viku lækkað um 5,8%.

Við lok markaða s.l. föstudag stóð vísitalan í 355 stigum en við lok markaða í gær stóð hún í 347 stigum samkvæmt Markaðsvaktinni.

Í meðfylgjandi töflu má sjá helstu hækkanir og lækkanir einstakra félaga í Kauphöllinni í vikunni.

Þar sést hvernig Exista leiddi lækkanir vikunnar með því að lækka um 33,3%.

Þessi lækkun átti sér stað á mánudag en eftir lok viðskipta þann dag kvaddi Exista Kauphöllina eftir að hafa lækkað um 99,8% frá áramótum, mest allra félaga í Kauphöll líkt og fjallað var um hér.

Þá lækkaði Straumur um 8,6% og hefur því lækkað um 86,9% frá áramótum.

Af þeim félögum sem á annað borð hækkuðu þessa tvo daga hækkaði Century Aluminum mest eða um 1,9%. Á mánudaginn tilkynnti Century í Bandaríkjunum að til stæði að segja upp allt að 13% starfsmanna þar í landi í umfangsmiklum sparnaðaraðgerðum. Viðskipti með bréf í félaginu námu þó aðeins 8,5 milljónum króna.

Century Aluminum hefur engu að síður lækkað um 68,5% frá áramótum.

Þá hækkaði Össur um 1,6% í vikunni sem væri ekki frásögu færandi nema að það gerir það að verkum að Össur fer í jólafríið sem eina félagið í Kauphöll Íslands sem hefur hækkað frá áramótum en félagið hefur nú hækkað um 1,4%.

Það hefur ekki gert frá því um miðjan september mánuð að nokkurt félag hafi hækkað í Kauphöllinni frá áramótum.

Sæmileg velta miðað við undanfarnar vikur

Heildarvelta með hlutabréf var s.l. tvo daga um 840 milljónir króna sem verður að teljast sæmilegt miðað við veltuna undanfarnar vikur.

Mest var veltan með bréf í Marel eða rétt rúmar 213,5 milljónir króna.

Þá var velta fyrir tæpar 212 milljónir króna með bréf í Straum og tæpar 142 milljónir króna með bréf í Össur.