Úrvalsvísitalan [ OMXI15 ] lækkaði í vikunni sem nú er á enda, eða um 2,8%.

Á miðvikudaginn síðasta fór Úrvalsvísitalan undir 4.000 stig í fyrsta sinn í rúma 40 mánuði en hún hefur ekki farið upp fyrir þann múr aftur.

Við lok markaða s.l. föstudag stóð vísitalan í 4.058 stigum en stóð við lok markaða í dag í 3.967 stigum samkvæmt Markaðsvakt Mentis.

Á myndinni hér til hliðar má sjá helstu hækkanir og lækkanir einstakra félaga í Kauphöllinni í vikunni.

Century Aluminum [ CENX ] hækkaði mest allra félaga í vikunni eftir að hafa leitt lækkanir félaga í síðustu viku en þá lækkaði félagið 15,3%.

Century Aluminum er þó enn eina félagið sem hefur hækkað í Kauphöllinni frá áramótum en félagið hefur hækkað um 7,8%.

Eimskip sekkur

Eimskipafélag Íslands [ HFEIM ] lækkaði eins og sjá má um 35,4% í vikunni og hefur nú lækkað um 77% frá áramótum, mest allra félaga í Kauphöllinni.

Þá lækkaði félagið um rúm 21% bara í dag en eins og fram hefur komið á vb.is í dag hefur mikið gengið á hjá félaginu síðustu daga og má þar helst nefna uppgjör félagsins fyrir þriðja ársfjórðung þar sem tilkynnt er um tap upp á 20 milljónir evra og gjaldþrot XL Leisure Group sem er þungt högg á félagið.

Töluvert meiri velta milli vikna

Velta með hlutabréf jókst töluvert milli vikna, var í vikunni 26,3 milljarðar króna samkvæmt Markaðsvakt Mentis en var í vikunni þar á undan 15,3 milljarðar.

Líkt og síðustu fjórar vikur var mesta veltan með bréf í Kaupþing [ KAUP ] en hún var í vikunni rúmir 12 milljarðar og tvöfaldaðist frá vikunni áður. Gengi Kaupþings hækkaði um 0,1% í vikunni.

Þá var velta með bréf í Landsbankanum [ LAIS ] fyrir um 8,2 milljarða en var í vikunni á undan um 2,5 milljarðar.

Þá var velta fyrir um 4,8 milljarða króna með bréf í Glitni [ GLB ], um 1,8 milljarður með bréf í Straum [ STRB ] og um 1,6 milljarðar króna með bréf í Atorku [ ATOR ] en minni velta var með bréf í öðrum félögum.