Úrvalsvísitalan [OMXI15] hækkaði í vikunni sem nú er á enda um 5,4%. Við lok markaða s.l. föstudag stóð vísitalan í 4.057 stigum en stóð við lok markaða í dag í 4.277 stigum samkvæmt Markaðsvakt Mentis.

Á myndinni hér til hliðar má sjá helstu hækkanir og lækkanir einstakra félaga í Kauphöllinni í vikunni. Þar sést hvernig fjármálafyrirtæki eru áberandi í hækkunum vikunnar.

Þannig hækkaði Exista mest allra félaga í vikunni eða um 15,8%. Félagið hefur þó lækkað um 61,4% frá áramótum.

Nú er svo komið að ekkert félag í Kauphöllinni hefur hækkað frá áramótum en síðustu vikur og mánuði hefur Century Aluminum verið eina félagið sem hingað til hafði hækkað. Félagið hefur þó núna lækkað um 5,3% frá áramótum.

Þá leiddi Teymi lækkanir vikunnar og lækkaði um 14,3% en félagið hefur lækkað um 79,4% frá áramótum.

Eimskipafélag Íslands hélt áfram að lækka í vikunni og lækkaði um 5,7%, en félagið hefur nú lækkað um 88% frá áramótum.

Viðskipti með bréf í Kaupþing ýta upp veltu

Velta með hlutabréf jókst töluvert milli vikna og hefur verið að aukast síðustu vikurnar. Veltan var í vikunni um 57,4 milljarðar króna samkvæmt Markaðsvakt Mentis en var í vikunni þar á undan 46  milljarðar.

Mest var veltan með bréf í Kaupþing eða fyrir tæpa 33,6 milljarða króna. Þó er rétt að hafa í huga að á mánudag keypti Sheikh Mohammed Bin Khalifa Al-Thani 5,01% í Kaupþingi fyrir um 25 milljarða króna . Þannig að önnur velta er aðeins um 8 milljarðar króna.

Þá var velta fyrir tæpar 13,3 milljarða króna með bréf í Glitni, um 4,7 milljarðar með bréf í Landsbankanum, um 3 milljarðar með bréf í Straum og tæpir 1,4 milljarðar með bréf í Exista.