Mikill uppgangur einkenndi árin eftir sameiningu fosshótela og annarra hótela í eigu sömu fjölskyldunnar undir merkjum Íslandshótela. Ferðamannafjöldinn óx ævintýralega ár frá ári allt fram til ársins 2018, sem var það stærsta í sögu Íslandshótela. Á þessum árum voru opnuð ný hótel auk þess sem eldri hótel voru endurnýjuð og mörg hver stækkuð. Eftir þennan mikla meðbyr tók að blása á móti árið 2019.

„Vorið 2019 var mjög sérstakt. Við vorum að glíma við verkföll og svo fer Wow air á hliðina sem hafði töluverð áhrif, sérstaklega á ferðamenn frá Bandaríkjunum, sem voru orðnir okkar fjölmennasti hópur, og á okkar næststærsta hóp, Bretana. Þótt um hægðist frá ári 2018, sem var það besta í sögu félagsins, þá var 2019 ágætt ár. Við veltum 12,5 milljörðum og afkoman var með ágætum en við hefðum verið að velta umtalsvert meira ef Wow hefði haldið velli," segir Davíð Torfi Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslandshótela.

Síðla árs 2019 var Davíð staddur í Wuhan í Kína, grunlaus um að þar í borg, um sama leyti, væri óværa að búa um sig sem átti eftir að leiða til áfalls sem lét allar fyrri áskoranir blikna í samanburðinum.

„Við höfðum verið að sækja ferðamanninn mikið frá Kína og Asíu og ég var staddur í Wuhan í nóvember 2019 þar sem Íslandsstofa stóð fyrir kynningu og mörg íslensk fyrirtæki voru með kaupstefnur. Það var svo í janúar 2020 sem fregnir fóru að berast af veirufaraldrinum í Kína. Við fórum þá að velta því fyrir okkur hvort við þyrftum mögulega að taka hópabókanir frá Kína fyrir sumarið út, þar sem þeir myndu örugglega ekki koma og við gætum nýtt herbergin undir aðra. Þá grunaði okkur ekki hver þróunin átti eftir að verða, við héldum að við fengjum áfram fullt af ferðamönnum en svo skall bara allt í lás."

Þegar síga tók á ógæfuhliðina hittist framkvæmdastjórn á hverjum degi til þess að fara yfir stöðuna.

„Útlitið breyttist liggur við dag frá degi, við þurftum að loka hverju hótelinu á fætur öðru og á tímabili var Grand hótel eina hótelið sem var opið hjá keðjunni. Starfsfólkið hefur stigið þetta með okkur en þetta hefur reynt gífurlega á. Við fórum úr rúmlega 800 starfsmönnum niður í um 200 á tímabili, sem er ótrúlega mikill samdráttur."

Nánar er rætt við Davíð í bókinni 300 stærstu, sem var að koma út. Hægt er að kaupa eintak af bókinni hér .