Viðræður um yfirtöku Austurhafnar TR, sem er samstarfsvettvangur ríkis og Reykjavíkurborgar, á Eignarhaldsfélaginu Portusi hf. og áframhaldandi framkvæmdir við tónlistarhúsið standa yfir. Verktakafyrirtækið ÍAV hefur frestað framkvæmdum þar sem félagið hefur ekki fengið greitt fyrir sína vinnu í þrjá mánuði.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins á ÍAV yfir 800 milljónir króna inni hjá Portusi og treystir sér ekki til að halda áfram vinnu við húsið án þess að fá það greitt. Vonir standa til að niðurstöður fáist um framhald verkefnisins á allra næstu dögum.

Sigurður Ragnarsson, framkvæmdastjóri Austurhafnarverkefnis hjá ÍAV, vildi ekkert láta hafa eftir sér um útistandandi skuldir félagsins né stöðu viðræðna, en sagði aðeins að ÍAV hafi sýnt mikla þolinmæði í málinu.