*

mánudagur, 1. mars 2021
Innlent 31. janúar 2020 14:43

ÍAV byggir 4 milljarða baðlónið

Nature Resort semur við ÍAV um byggingu baðlóns á Kársnesi sem verður á lóðinni við hlið gömlu lóðar Wow air.

Ritstjórn
Sigurður Ragnarsson forstjóri ÍAV, Eyþór Guðjónsson og Gestur Þórisson, við undirritun samningsins. Í aftari röð frá ÍAV eru þau Haukur Magnússon, Oddur Helgi Oddsson, Ólafur Már Lárusson, Andrea Ösp Viðarsdóttir og Kristján Arinbjarnarsson.
Aðsend mynd

Nature Resort ehf. og ÍAV hf. undirrituðu í dag verksamning sem felur í sér að ÍAV verður aðalverktaki við uppbyggingu á baðlóni fyrir Nature Resort ehf við Vesturvör á Kársnesi í Kópavogi. Samningsform er stýriverktaka.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í byrjun desember hyggjast aðstandendur verkefnisins byggja baðlónið í samstarfi við rekstraraðila Flyover Iceland. Fyrst var sagt frá hugmyndum um baðlón á þessum stað, sem er á næstu lóð við hlið fyrirhugaðs hótels og höfuðstöðva Wow air í lok árs 2017.

Hlutverk ÍAV er að stýra uppbyggingu á baðlóni við sjóinn, kaldri laug og gufuböðum. Nýbyggingin, sem verður á tveimur hæðum, mun meðal annars hýsa móttöku, skiptiklefa, veitingasölu og verslun, auk ýmis stoð- og tæknirými. Jarðvinnuframkvæmdir og lagnavinna í jörðu hófust haustið 2019 á vegum verkkaupa. 

Verkefnið er í eigu Nature Resort ehf. og hafa aðaleigendur félagsins, Eyþór Guðjónsson og Gestur Þórisson stýrt uppbyggingu þess á undanförnum árum í samvinnu við afþreyingar- og ferðaþjónustu fyrirtækið Pursuit. Pursuit verður rekstraraðili baðlónsins og hefur Dagný Hrönn Pétursdóttur, sem starfaði sem framkvæmdastjóri Bláa lónsins í 10 ár, verið ráðin framkvæmdastjóri.