Þær 800 milljónir sem Íslenskir aðalverktakar (ÍAV) töldu sig eiga útistandandi um áramót vegna vinnu við Tónlistarhúsið voru greiddar af greiðslutryggingu verkefnisins í Landsbankanum.

Stefán Hermannsson framkvæmdastjóri Austurhafnar-TR segir að Landsbankinn eigi síðan væntanlega kröfurétt á Portus eða Austurhöfn sem væntanlegan nýjan eiganda verkefnisins.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins munu nýir reikningar vegna vinnu ÍAV við Tónlistarhúsið vera á gjalddaga á morgun. Það er þó ekki talið eiga að koma í veg fyrir að vinnan hefjist að nýju um leið og samningar klárast um yfirtöku Austurhafnar á Eignarhaldsfélaginu Portusi hf.