„Það er þetta nýja í Kåfjord, svo erum við á lokastigi að ljúka jarðgöngum fyrir lestir, verkefni upp á um níu milljarða króna, og loks erum við að gera stór jarðgöng fyrir Stafangur, sem er okkar stærsta verkefni, upp á eina 25 milljarða króna,“ segir Sigurður Sigurðsson, yfirmaður hjá Marti Norge AS og áður framkvæmdastjóri hjá ÍAV, í samtali við Morgunblaðið .

Þar kemur fram að ÍAV, sem er í eigu Marti Contractor í Sviss, hafi fyrir helgi gengið frá tíu milljarða samningi við norsku vegagerðina. Er þar um að ræða byggingu 5,8 kílómetra jarðganga undir Nornafjall í sveitarfélaginu Kåfjörd í Noregi. Reiknað er með að framkvæmdir hefjist nú í desember.

Ístak er einnig með mörg verkefni í gangi og hefur nýlega lokið vegaframkvæmdum og gerð vegskála fyrir norsku vegagerðina í Ytre Sortvik í Finnmörku. „Eftir áramót verðum við með þrjú verkefni í gangi, þar af tvö mjög stór,“ segir Gísli H. Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ístaks í Noregi, í samtali við Morgunblaðið. Annað þeirra sé stórt jarðganga- og vegagerðarverkefni í Narvik, en hitt verkefnið sé jarðvinna og bygging fimm lítilla vatnsaflsvirkjana við Tosbotn í Norður-Noregi.