Íslenskir aðalverktakar (ÍAV) hafa höfðað dómsmál gegn Reykjavik Development, vegna framkvæmdanna við Hafnartorg. ÍAV telur sig eiga rétt á að byggja bílakjallara á öllu Hafnartorgssvæðinu, sem nær frá Hörpu að Tryggvagötu. Sigurður R. Ragnarsson, forstjóri ÍAV, segir réttinn byggja á samkeppni um byggingu tónlistarhúss frá árinu 2004.

Í hruninu hafi ákvæðum hins vegar verið breytt eftir að verkkaupinn Portus hafi orðið gjaldþrota eftir bankahrunið. ÍAV hafi verið hálfnað við byggingu Hörpu þegar hrunið skall á og átt rétt á að sjá um byggingarframkvæmdir á svæðinu sem nú heitir Hafnartorg. Samhliða því að samið var um að ljúka við byggingu Hörpu hafi ÍAV verið þvingað til þess að gefa frá sér mestöll byggingarréttindi á svæðinu. „Að öllu leyti nema við héldum byggingarreitnum fyrir kjallara. Þetta gerðum við samning um og er meitlað í stein,“ segir Sigurður.

„Síðan fer félagið Sítus, sem átti byggingarréttinn, að selja þessar lóðir og virðist passa misvel upp á þessi réttindi okkar,“ segir Siguður. ÍAV hafi reglulega minnt á réttindi fyrirtækisins undanfarin ár. Hinum megin við Geirsgötuna hafi lóðarhafar viðurkennt réttindi ÍAV og samningaviðræður standi yfir um verðmæti réttindanna að sögn Sigurðar. Um töluverða fjármuni getur verið að ræða fyrir ÍAV, en fyrirhugaðar framkvæmdir á öllu Hafnartorgssvæðinu nema tugum­ milljarða króna.

Telja málsóknina langsótta

„Í mínum huga er þetta afskaplega langsótt, þessi réttur er bara ekki til staðar,“ segir Bjarki Þór Sveinsson, lögmaður Reykjavik Development. Actus, systurfélg ÞG Verk, keypti Reykjavik Development árið 2016. Þá „poppar“ upp einhver krafa frá ÍAV þar sem þeir telja sig hafa einhvern forgangsrétt á því að byggja á svæðinu í einhverjum, ég ætla bara að leyfa mér að segja það, leynisamningum fyrir tíu árum síðan,“ segir Bjarki.

Bjarki Þór segir að ef réttur ÍAV hafi átt að vera til staðar hefði átt að þinglýsa samningnum. „Þá hefði umbjóðandi minn vitað af þessu þegar hann keypti lóðirnar og ekki hafi verið hægt að koma aftan að honum með þetta.“ Þá segir óljóst hvað ÍAV eigi við með bílakjallara. „Það er kjallari undir öllu húsinu, en það er mikið til lagerrými, eitthvað er verslunarrými, það er ekkert allt bílakjallari.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .