Verktakafyrirtækin Íslenskir aðalverktakar og NCC International hafa stefnt íslenska ríkinu og krefjast 520 milljóna króna bóta vegna ólögmætrar frestunar á útboði Héðinsfjarðarganga.

Þetta kemur fram á vef Samtaka iðnaðarins (SI) en þar segir að fyrirtækin áttu lægsta tilboð í verkið árið 2003.

Þá er greint frá því að samgönguráðherra hafi ákveðið að taka engu tilboðanna sem bárust í verkið.

Samkvæmt vef SI hljóðaði tilboð ÍAV og NCC upp á 6,2 milljarða og var þremur prósentum yfir kostnaðaráætlun Vegagerðarinnar. Þegar verkið var boðið út á ný árið 2006 var lægsta tilboð 5,8 milljarðar króna.

Málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Jóhannes Karl Sveinsson, lögmaður verktakafyrirtækjanna, segir að annað mál sem Hæstiréttur dæmdi árið 2005 hafi gert ríkið skaðabótaskylt ef það frestaði útboði.

Ríkið hafnar kröfu fyrirtækjanna og færir þau rök fyrir máli sínu að ekki sé hægt að fullyrða að ÍAV hafi orðið fyrir neikvæðum áhrifum í rekstri. Það hafi sinnt öðrum stórum verkum á fyrirætluðum tíma gangnagerðarinnar.