Hagnaður Íslenskra aðalverktaka í fyrra nam 11,1 milljón króna, en var um 7,3 milljónir árið 2011. Velta fyrirtækisins nær helmingaðist milli ára, fór úr 8,7 milljörðum árið 2011 í 4,6 milljarða í fyrra, en rekstrarkostnaður minnkaði hlutfallslega meira milli ára og var rekstrartap fyrir afskriftir 112,3 milljónir í fyrra, en var 198,4 milljónir árið 2011.

Líkt og árið 2011 lyftu fjármunatekjur afkomunni upp fyrir núllið, en þær voru 327,8 milljónir í fyrra og 543,3 milljónir árið 2011. Efnahagsreikningur ÍAV er sterkur. Eignir námu í árslok 2.394 milljónum króna og eigið fé nam 756 milljónum. Skuldir eru nær allar skammtímaskuldir og skuldar fyrirtækið lánastofnunum ekki neitt. Heildarlaun til stjórnenda félagsins á árinu 2012 námu 141 milljón króna, en alls námu laun og launatengd gjöld. 1.172,7 milljónum króna.