Íslenskir aðalverktakar (ÍAV) hafa tekið í notkun innri upplýsingavef í Microsoft Office SharePoint fyrir 600 starfsmenn fyrirtækisins sem eru á yfir 30 vinnustöðum vítt og breitt um landið. Með SharePoint er hægt að miðla upplýsingum og gögnum, sem liggja á mörgum stöðum, til starfsmanna. Markmiðið er að tryggja að starfsfólk geti notað upplýsingar og gögn á einfaldan og öruggan hátt án tillits til staðsetningar í gegnum vafra, segir í frétt frá Applicon. En Applicon sá um innleiðingu tölvukerfisins.

„Starfsemi ÍAV er mjög dreifð og því mikilvægt að geta komið upplýsingum á framfæri til starfsmanna, í gegnum kerfi eins og SharePoint. Upplýsingavefurinn er því nokkurs konar samkomustaður og fréttaveita fyrir 30 vinnustaði ÍAV,” segir Guðmundur B. Hólmsteinsson, forstöðumaður tölvudeildar ÍAV í fréttinn .

Þá er stefnt að því að tengja SharePoint við Microsoft Dynamics Nav til birtingar á verkum og viðskiptavinum ÍAV í sumar. Ennfremur er SharePoint ætlað að halda utan um upplýsingar um undirverktaka og birgja.

Applicon er eitt stærsta ráðgjafarfyrirtæki landsins í Microsoft lausnum og hefur fyrirtækið yfir að ráða fjölda sérfræðinga á því sviði, segir í fréttinni.

Applicon er í eigu Nýherja [ NYHR ].