Það vakti mikla athygli í gær þegar ameríska risafyrirtækið IBM greindi frá því að það hefði selt kínverska félaginu Lenovo þann hluta rekstrar síns sem snýr að framleiðslu einkatölva. IBM var brautryðjandi á sviði einkatölvunnar og setti fyrstu slíku tölvuna á markað árið 1981. Síðan þá hefur margt breyst og seldi félagið m.a. arðsömustu hluta framleiðslunnar frá sér og út frá þeim spruttu fyrirtæki eins og Intel og Microsoft sem flestir kannast við. Má segja að nú hafi IBM stigið síðasta skrefið á þessari leið sinni og nánast alveg sagt skilið við einkatölvuna.

Í Hálffimm fréttum KB banka kemur fram að kaupverðið er um 1,25 milljarðar dollara og mun Lenovo greiða 650 milljónir með reiðufé og 600 milljónir með eigin bréfum.. Eftir kaupin mun IBM því eiga um 18,9% hlut í Lenovo. Einnig mun Lenovo yfirtaka um 500 milljónir dollara af skuldum IBM sem tengjast þessum hluta rekstrarins. Lenovo var áttundi stærsti framleiðandi einkatölva í heiminum með um 1,7% markaðshlutdeild en verða eftir kaupin þriðji stærsti framleiðandinn með 7-8% markaðshlutdeild.

"Áætluð velta á markaði með einkatölvur er um 183 milljarðar dollara á þessu ári en stærstu framleiðendurnir eru Dell, með um 16,8% markaðshlutdeild, og Hewlet-Packard með um 15%. Áætluð velta Lenovo fjórfaldast með kaupunum og verður um 12 milljarðar dollara en framlegð er mjög lág í rekstri sem þessum og verðsamkeppni er hörð. Nefna má að velta IBM af framleiðslu einkatölva á þriðja ársfjórðungi var um 2,84 milljarðar dollara en tap var á rekstrinum sem nam 50 milljónum dollara á tímabilinu. Lenovo mun framleiða vörur undir merkjum IBM, a.m.k. næstu fimm árin, og fá þannig aðgang að þriðja þekktasta vörumerki heims, á eftir Coca Cola og Microsoft," segir í Hálffimm fréttum KB banka.

Þessi kaup eru enn eitt dæmi þess að framleiðsla tæknibúnaðar færist í síauknum mæli til Asíu þar sem framleiðslukostnaður er mun lægri en víða annarsstaðar.