Tæknifyrirtækið IBM hyggst á ráðstefnu Nýherja í næstu viku fjalla um ofurtölvuna Watson, sem getur lesið 200 milljón blaðsíður á 15 sekúndum.

Fram kemur í tilkynningu frá Nýherja að ofurtölvan Watson, sem byggir á hugrænni tölvun (Cognitive computing), sameinar mannlega vitsmuni og býr yfir getu til þess að vinna úr og geyma áður óþekkt magn gagna, með meiri hraða en áður. Markmiðið með hönnun ofurtölvunnar er að gera fyrirtækjum mögulegt að vinna úr og halda utan um sívaxandi gagnamagn á komandi árum.

Watson vann sér það til frægðar að vinna tvo bestu keppendur í Jeopardy fyrir nokkrum árum og hefur nú hafið störf í heilbrigðis-, fjármála- og þjónustugeirunum.

Ráðstefna Nýherja og IBM heitir Smarter Business og verður þar m.a. fjallað um Social Business, samfélag innan fyrirtækisins, og framtíðarsýn IBM í afritunar- og öryggislausnum.