*

mánudagur, 6. júlí 2020
Innlent 12. maí 2020 09:57

IBM verðlaunar Origo fyrir nýsköpun

Alþjóðlegur tæknirisi afhendir samstarfsaðila á Íslandi Beacon verðlaunin fyrir gagnalausnina Aurora DataCloud.

Ritstjórn
Ottó Freyr Jóhannesson, forstöðumaður Hýsinga- og rekstrarlausna, Inga Steinunn Björgvinsdóttir, sölustjóri Skýja- og öryggislausna og Björn Markús Þórsson, sölustjóri Hýsinga- og rekstrarlausna hjá Origo.
Aðsend mynd

Upplýsingatæknifyrirtækið Origo hefur hlotið Beacon verðlaunin hjá alþjóðlega tæknirisanum IBM fyrir gagnalausnina Aurora DataCloud. Verðlaunin eru veitt fyrir nýsköpun er byggir á lausnum frá IBM og greint var frá þeim á árlegri THINK ráðstefnu fyrirtækisins.

Ottó Freyr Jóhannsson forstöðumaður hjá Origo segir félagið vera afar stolt og ánægt með verðlaunin.

„Þau eru mikil viðurkenning fyrir Origo enda ein eftirsóttustu verðlaunin fyrir samstarfsaðila IBM. Það voru fjölmörg stór alþjóðleg fyrirtæki tilnefnd og því er þetta sérstaklega ánægjulegt að hafa borið sigur úr býtum. Ég tel að árangurinn sýni að fyrirtækið er framarlega þegar kemur að nýsköpun lausna og býr yfir afar hæfum sérfræðingum á alþjóðlegum mælikvarða,“ segir Ottó Freyr.

Beacon verðlaunin hafa verið veitt árlega í San Francisco en voru veitt að þessu sinni á stafrænu ráðstefnunni Think 2020 vegna COVID-19.

„Aurora er skýjalausn sem var hönnuð til að geyma mikið magn gagna með öruggum hætti til langs tíma á sérlega hagkvæman hátt. Lausnin var þróuð með nýstárlegri samsetningu IBM lausna ásamt hugviti Origo og er því um byltingarkennda nýjung að ræða, sem hefur margvíslega kosti fram yfir hefðbundnar gagnageymslur. Aurora er umhverfisvæn því hún nýtir aðeins endurnýjanlega orku og dregur því úr kolefnisspori. Auk þess sparar hún orku sem þarf til geymslu um allt að 90%,“ segir Ottó.

Ottó segir að Aurora sé í samkeppni við stórar skýjaveitur eins og Amazon, Google og fleiri og því sé sérlega mikilvægt að hafa öðlast viðurkenningu frá IBM. Origo mun í samstarfi við IBM kynna lausnina og notkun hennar á vefkynningu miðvikudaginn 13. maí.