Sala er hafin á íbúðum í 2. áfanga í Skuggahverfi og þar er boðin til sölu 312 fermetra íbúð sem hefur viðmiðunarverðið 230 milljónir króna. Eftir því sem komist verður næst er þetta dýrasta íbúð Íslandssögunnar. Í þessum áfanga er um að ræða 13 íbúðir á efstu hæðum húsanna sem afhentar verða tilbúnar til innréttingar. Þetta kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag.

Aðrar íbúðir í áfanganum verða seldar fullbúnar og hefst sala þeirra í haust. Þessar 13 íbúðir kosta samtals ríflega 1,5 milljarða króna samkvæmt viðmiðunarverðskrá þannig að meðalverð er 120 milljónir króna. Að sögn Hörpu Þorláksdóttur, markaðsstjóra 101 Skuggahverfis, var ákveðið að fara þessa leið til að gefa áhugasömum jafna möguleika að hreppa íbúðirnar en allmargir voru búnir að setja sig á lista eftir þeim.


Salan verður með þeim hætti að 8.-18. júní verður opið fyrir móttöku tilboða í íbúðirnar. Eftir að tilboðstímabili lýkur verður unnið úr tilboðum og samband haft við hæstbjóðendur. Það er ljóst að þeir sem ætla að hreppa íbúðirnar verða að hafa eitthvað á milli handanna því dýrasta íbúðin kostar 230 milljónir króna samkvæmt verðlista eins og áður sagði. Þá er eftir að innrétta íbúðina. Hún er á tveimur hæðum og er 312 fermetrar. Þakgarður fylgir og arinrör. - Og að sjálfsögðu bílastæði, fyrir tvo bíla. Næst dýrasta íbúðin kostar 145 milljónir en hún er "aðeins" 254 fermetrar að stærð. Tæplega 200 fermetra íbúð kostar 121 milljón króna.

Í 101 Skuggahverfi verða 15 íbúðabyggingar með samtals 250 íbúðum. Íbúafjöldi svæðisins er áætlaður 800 manns. Fyrsti áfangi stæðunnar er þegar risinn, samtals 79 íbúðir.