Jón Kristjánsson félagsmálaráðherra hyggst leggja fram tillögur um framtíðarskipulag Íbúðalánasjóðs í lok maí næstkomandi. Að hluta til má segja að hann sé í kappi við tímann því erlend matsfyrirtæki hyggjast birta nýjar álitsgerðir á stöðu sjóðsins í júní og hafa þau lagt áherslu á að þá liggi fyrir skýrar línur um framtíðarskipulag sjóðsins.

Stýrihópur á vegum félagsmálaráðherra hefur undanfarið unnið að því að setja saman frumvarp sem ráðherra gerir ráð fyrir að leggja fram næsta haust. Ljóst er að verulegar breytingar verða á starfsemi Íbúðalánasjóðs -- sem reyndar mun bera heitið Íbúðabanki Íslands -- ef fer sem horfir. Ekki er þó víst að allir sætti sig við þessar breytingar því háværar kröfur heyrast um að ríkið fari algerlega út af íbúðalánamarkaði. Ekki er útlit fyrir að pólitískur vilji sé til slíks og sagðist Jón Kristjánsson félagsmálaráðherra í samtali við Viðskiptablaðið leggja áherslu á að hið opinbera verði áfram starfandi á þessum markaði, meðal annars til að tryggja félagslegt jafnræði og að landsbyggðarfólk hafi jafnan rétt á við aðra.

Ítarleg úttekt er á Íbúðalánasjóði í Viðskiptablaðinu í dag.