Það er margt sem bendir til að íbúðabréf komi til með að eiga erfitt uppdráttar í janúar. Í því samhengi má nefna að stýrivextir eru háir á sama tíma og það er búist við að vísitala neysluverðs haldist óbreytt, segir greiningardeild Glitnis.

?Það má því búast við áframhaldandi streymi fjár inn á peningamarkað. Þrátt fyrir þetta gerum við ráð fyrir að ávöxtunarkrafa íbúðabréfa muni lækka lítillega frá því sem nú er. Við teljum þó að sú lækkun verði ekki endilega langvinn heldur eigum við frekar von á því að krafan sveiflist á 10-25 punkta bili í styttri flokkunum og 5-15 punkta bili í þeim lengri,? segir greiningardeildin.

Hún gerir ráð fyrir lækkandi kröfu út árið. ?Byggist sú spá á því að stýrivextir verði lækkaðir tiltölulega hratt á síðari hluta ársins og það muni draga úr ávöxtun á peningamarkaði. Má þá búast við meira flæði fjármagns í skuldabréf og það komi til með að skapa þrýsting til lækkunar ávöxtunarkröfu verðtryggðra bréfa þegar líða fer á árið. Enn fremur gerum við ráð fyrir að töluverðum hækkunum á milli mánaða í vísitölu neysluverðs seinni hluta ársins,? segir greiningardeildin.

Ríkisbréf

Greiningardeildin hefur einnig lækkað spá sína fyrir ávöxtunarkröfu ríkisbréfa lítillega frá síðasta mánuði. ?Það er mat okkar að væntingar um lækkun vísitölu neysluverðs næstu mánuði muni mynda þrýsting til lítilsháttar lækkunar á ávöxtunarkröfu bréfanna og það muni hafa áhrif þar sem lítið framboð er á bréfunum.

Lögun óverðtryggða ferilsins hefur verið nokkuð sérstök síðustu daga en það er hlykkur á honum í styttri enda hans. Þannig er ávöxtunarkrafa stysta flokks ríkisbréfa lægri en krafa þess næst stysta. Við teljum að fjárfestar muni nýta sér þetta og færa sig niður eftir ferlinum, það er skipta RIKB 08 0613 út fyrir RIKB 08 1212,? segir hún.

Langtímaspáin fyrir ávöxtunarkröfu ríkisbréfa hefur einnig verið lækkuð. ?Við teljum að lækkandi stýrivextir verði farnir að hafa áhrif strax um mitt árið og að vaxtalækkunarferlið muni þrýsta kröfu bréfanna niður út árið,? segir greiningardeildin.