Íbúðaeigendur halda sem fastast í íbúðir sem þeir þyrftu að selja í von um betri tíð síðar. Þeir sem hyggjast kaupa íbúð horfa til offramboðs á húsnæði og hvort frekari verðhjöðnun gæti orðið, auk óvissunar í þjóðarbúskapnum.

Þetta segir í endurskoðaðri hagspá Hagstofunnar. Segir að uppsett verð eigna lækki treglega, en raunverð hefur lækkað mikið.

„Húseigendur sem eru í fjárhagsvanda eru milli steins og sleggju. Margir standa frammi fyrir því að geta ekki selt eignir sínar vegna yfirveðsetningar. Sala nú festir enda í sessi til frambúðar, það misgengi eigna og skulda sem átt hefur sér stað síðustu misseri.Seljendamegin á markaðnum neyðast því margir til halda sem fastast í íbúðir sem þeir þyrftu að selja í von um betri tíð í síðar. Kaupendamegin er horft til offramboðs á húsnæði og hvort frekari verðhjöðnun gæti orðið auk óvissunnar í þjóðarbúskapnum. Því er lítið um viðskipti.“

Í spánni er gert ráð fyrir að fasteignamarkaður taki hægfara við sér þegar hagvöxtur eykst. Gert er ráð fyrir að íbúðafjárfestingar vaxti verulega á næstu árum en bent er á að nauðsynlegt er að hafa í huga að vöxturinn er frá mjög lágu stigi.