Nýtt þéttbýli rís við Skógafoss undir Eyjafjöllum verði hugmyndir skipulagsyfirvalda í Rangárþingi eystra að veruleika. Verið er að undirbúa endurskoðun deiliskipulags fyrir svæðið og er þverpólitísk samstaða um það í sveitarfélaginu að byggja upp á Skógum.

Í nýju aðalskipulagi Rangárþings eystra eru Skógar skilgreindir sem þéttbýlissvæði. Anton Kári Halldórsson, byggingar- og skipulagsfulltrúi Rangárþings eystra, segir að á Skógum gæti risið allt að hundrað manna þorp. „Í dag búa eitthvað um 25 manns á Skógum. Það er kannski ekkert óeðlilegt að áætla að það gæti á næstu 20 árum fjölgað um 75 manns eða eitthvað svoleiðis,“ segir Anton. Hann segir að í sveitarfélaginu ríki almenn sátt um þessar hugmyndir. „Það komu allavega engar athugasemdir við þessa breytingu á aðalskipulagi, að Skógar yrðu skilgreindir sem þéttbýlissvæði.“

Anton segist ekki geta fullyrt um það hvenær uppbygging hefst. Það fari eftir því hvenær skipulagsvinnan fari af stað og hvað hún taki langan tíma. „En segjum sem svo að vinnan við endurskoðun deiliskipulags fari af stað í vetur, þar sem þá yrði skipulögð uppbygging í ferðaþjónustu og íbúðabyggð. Það fer bara í formlegt ferli og við getum gefið því ár. Eftir það er allt orðið klárt til að fara að byggja upp,“ segir hann.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .