Á vegum sveitarfélagsins Borgarbyggðar hefur verið boðað til íbúafundur um málefni Sparisjóðs Mýrasýslu annað kvöld, miðvikudaginn 13. ágúst klukkan 20:30 í Íþróttamiðstöðinni í Borgarnesi.

Þetta kemur fram á vef Skessuhorns en þar segir að á fundinum verði afkoma og slæm fjárhagsstaða sjóðsins kynnt en framsögumenn verða þeir Gísli Kjartansson sparisjóðsstjóri, Sigurður Már Einarsson formaður stjórnar SPM og Páll S Brynjarsson sveitarstjóri.

Að framsöguerindum lokunum verða almennar umræður þar sem stjórnarmenn SPM og fulltrúar í byggðaráði Borgarbyggðar sitja fyrir svörum.

„Búist er við fjölmenni á fundinn enda hafa málefni sparisjóðsins brunnið mjög á íbúum þess undanfarna 10 daga,“ segir á vef Skessuhorns.