Bankarnir gáfu út íbúðalán að andvirði 18 ma.kr. í maí skv. tölum frá Seðlabanka Íslands og hafa útlán þeirra verið að minnka síðustu þrjá mánuði. Á þessu ári hafa bankarnir lánað að meðaltali 20 ma.kr. á mánuði samanborið við 30 ma.kr. í lok síðasta árs. Heildarfjöldi íbúðalána bankanna er nú kominn yfir 20 þúsund og er meðalupphæð hvers láns 10,6 m.kr.

Kaupsamningar í Reykjavík og Akureyri í maí voru undir 950 en þessi svæði eru talin standa fyrir tæplega 76% þinglýstra samninga á öllu landinu. Því má ætla að heildarfjöldi kaupsamninga í maí hafi verið á stærðargráðunni 1.200-1.300. Bankarnir lánuðu um 1.900 lán í maí en á sama tíma var ÍLS með 6,6 ma.kr. í lánum. Miðað við að meðallán ÍLS séu 8,0 m.kr. má gera ráð fyrir því að fjöldi lána hans hafi verið um 800. Áætla má að heildarfjöldi útlána gæti verið um 2.700 á móti 1.300 kaupsamningum. Samkvæmt þessum tölum virðist enn vera töluvert um að fólk endurfjármagni eldri lán án þess að um íbúðaskipti sé að ræða.

Byggt á Morgunkorni Íslandsbanka.