Þeir sem veðsetja eignir sínar mest við kaup eru yngstu kaupendurnir, þeir sem eru með lægstu tekjurnar og þeir sem kaupa ódýrasta og minnsta húsnæðið. Þetta kemur fram í Morgunkorni Íslandsbanka og er byggt á könnun sem IMG Gallup gerði fyrir Íslandsbanka.

Að meðaltali var húsnæðislánið ríflega 86% af verðmæti eignarinnar hjá íbúðakaupendum á aldrinum 18-24 ára, 80% þar sem fjölskyldutekjur voru lægri en 250 þúsund, 85% þar sem kaupverð íbúðar var minna en 10 milljónir og 82% þar sem stærð íbúðar var undir 80 fermetrum. Þessir hópar ráðast í íbúðakaup með mjög lítið eigið fé og eru þess vegna viðkvæmastir fyrir því ef bakslag kemur í íbúðamarkaðinn og efnahagslífið í heild.

Mun lægri veðsetning og meira eigið fé er hjá eldri hópum, tekjuhærri og þeim sem eru að kaupa stærri eignir og verðmætari. Þannig var veðsetning 63% við kaup hjá 55 ára og eldri, 72% hjá þeim sem eru með 550 eða meira í fjölskyldutekjur, 53% hjá þeim sem keyptu íbúð sem kostaði 25 milljónir eða meira og 61% hjá þeim sem keyptu 170 fermetra húsnæði eða stærra.