Útlánatap Íbúðalánasjóðs á síðasta ári var 2.121 milljónir króna samanborið við 807 milljónir króna árið áður. Á tímabilinu 2000-2007 voru útlánatöp að stærstum hluta vegna lána til einstaklinga en á tímabilinu 2007-2010 hafa útlánatöp vegna lána til lögaðila aukist, einkum vegna leiguíbúðalána.

Þetta kemur fram í svari Guðbjarts Hannessonar, félags- og tryggingamálaráðherra, við fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar um stöðu Íbúðalánasjóðs.

Í kjölfar fjármálahrunsins hefur sjóðurinn afskrifað tæplega 10,5 milljarða króna vegna kaupa á skuldabréfum og vaxtaskiptasamninga. Segir í svarinu að hvort tveggja hafi verið liður í lausafjár - og áhættustýringu sjóðsins og í samræmi við stefnu hans. Tap sjóðsins vegna peningamarkaðssjóða er um 288 milljónir króna.

Bein útlánatöp við uppgjör á sölu íbúða í eigu einstaklinga að undangenginni nauðungarsölu námu 330 milljónum króna á síðasta ári og 301 milljón króna árið áður.

Svarið í heild má lesa hér .