Ríkisstjórnin hefur samþykkt tillögu Jóhönnu Sigurðardóttur, félags- og tryggingamálaráðherra, um að veita Íbúðalánasjóði 5 milljarða króna lánsfjárheimild vegna leiguíbúða. Þetta er gert á grundvelli yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar 19. júní sl. um aðgerðir á fasteigna- og fjármálamarkaði. Heimildin nær til leiguíbúða á almennum markaði vegna söluíbúða sem ekki seljast.

Þetta kemur fram á vef Íbúðalánasjóðs.

Þar kemur einnig fram að leiguíbúðalán verða veitt í þeim sveitarfélögum þar sem eftirspurn eftir leiguhúsnæði er fyrir hendi.

Lánað verður til íbúða sem eru a.m.k. fokheldar fyrir 1. júlí 2008.

„Til að takmarka útlánahættu Íbúðalánasjóðs vegna lánanna verða ekki veitt lán til íbúða í sveitarfélögum þar sem leiguíbúðir sem Íbúðalánasjóður hefur fjármagnað standa auðar. Uppfylli íbúðirnar þessi skilyrði getur Íbúðalánasjóður veitt lánsvilyrði en lánin verða greidd út þegar íbúðirnar eru fullbúnar og þinglýstur leigusamningur til eins árs liggur fyrir,“ segir á vef sjóðsins.