Heildarútlán Íbúðalánasjóðs námu um 2 milljörðum króna í desember, en þar af voru rúmir 1,7 milljarðar króna vegna almennra lána.

Heildarútlán sjóðsins á fjórða ársfjórðungi ársins 2010 námu tæpum 6,4 milljörðum króna samanborið við rúma 6,2 milljarða á sama tímabili 2009.

Samtals námu útlán sjóðsins á árinu 2010 um 26,9 milljörðum króna samanborið við tæpan 31 milljarð króna á árinu 2009. Meðalútlán almennra lána voru um 10,3 milljónir króna í desember en um 8,3 milljónir í nóvember síðastliðnum.

Íbúðalánasjóður gaf út mánaðarskýrslu fyrir desember í dag.

Stefnt að 5% eiginfjárhlutfalli

„Alþingi samþykkti 7. desember 2010 heimild til að leggja Íbúðalánasjóði til 33 milljarða króna til að efla eigið fé hans. Með því er stefnt að því að eiginfjárstaða sjóðsins geti orðið allt að 5% af áhættugrunni hans við árslok 2011. Þessi eiginfjáraukning sjóðsins er í samræmi við viljayfirlýsingu Alþjóða gjaldeyrissjóðsins og stjórnvalda frá í september 2010,“ segir í mánaðarskýrslu sjóðsins.

Kemur fram að heildarvelta íbúðabréfa nam um 48 milljörðum króna í desember samanborið við 119,5 milljarða í nóvember. Ársvelta íbúðabréfa á árinu 2010 nam tæpum 876 milljörðum króna samanborið við um 985 milljarða veltu á árinu 2009.

„Ávöxtunarkrafa íbúðabréfa lækkaði í öllum flokkum bréfanna frá ársbyrjun 2010 til ársloka 2010, um 51-84 punkta eftir flokkum.

Greiðslur Íbúðalánasjóðs námu rúmum 11 milljörðum króna í desember, en þær voru að mestu vegna afborgana íbúðabréfa. Uppgreiðslur lána Íbúðalánasjóðs í desember námu um 1,9 milljörðum króna.“