Heildarútlán Íbúðalánasjóðs námu tæplega 2,5 milljörðum króna í október, en þar af voru rúmir 2 milljarðar króna vegna almennra lána. Greiðslur Íbúðalánasjóðs námu tæpum 7,6 milljörðum króna í október, en þær voru að mestu vegna afborgana íbúðabréfa. Uppgreiðslur lána Íbúðalánasjóðs í október námu tæpum 1,4 milljörðum króna.

Samtals námu útlán á fyrstu tíu mánuðum ársins 2010 tæpum 23 milljörðum króna samanborið við rúmlega 26 milljarða á sama tímabili ársins 2009. Meðalútlán almennra lána voru um 9,6 milljónir króna í október en um 10,2 milljónir í september síðastliðnum.

Breytingar á aðalmiðlarasamning

5. október sl. ákváðu aðalmiðlarar og Íbúðalánasjóður að gera tímabundna breytingu á 3. gr. aðalmiðlarasamningsins, sem var undirritaður 16. júní 2010 og tók gildi 1. júlí 2010, í tengslum við útboð íbúðabréfa og um viðskiptavakt íbúðabréfa á eftirmarkaði. Með breytingunni var hámarksmunur kaup- og sölutilboða fyrir íbúðabréf aukinn, og var hún gerð til að auðvelta viðskiptavökum að sinna viðskiptavakt með íbúðabréf.

Nýtt skipurit

Stjórn Íbúðalánasjóðs hefur ákveðið að taka upp nýtt skipurit fyrir sjóðinn. Miklar áherslubreytingar hafa orðið á umhverfi sjóðsins undanfarna mánuði og er tilgangur breytinganna að koma til móts við þessar áherslur. Er nú unnið að innleiðingu nýja skipuritsins.

70 milljarða velta íbúðabréfa

27. október birti Hagstofa Íslands vísitölu neysluverðs fyrir verðlag í október. Nam hækkun vísitölunnar 0,74% frá fyrra mánuði, sem var yfir spám markaðsaðila. Ávöxtunarkrafa íbúðabréfa hækkaði um 28 punkta í HFF14 í kjölfarið, en lækkaði um 9-18 punkta eftir lengri flokkum bréfanna.

Heildarvelta íbúðabréfa nam um 70 milljörðum króna í október samanborið við um 199 milljarða í september. Það sem af er ári hefur heildarvelta íbúðabréfa numið rúmum 708 milljörðum króna miðað við um 809 milljarða á sama tímabili í fyrra.