Alls námu heildarútlán Íbúðalánasjóðs rúmlega 6,4 milljörðum króna í október.

Þar af voru tæplega 4,7 milljarðar vegna almennra lána og tæpir 1,7 milljarðar vegna leiguíbúðalána.

Þetta kemur fram á vef Íbúðalánasjóðs.

Þar kemur fram að heildarútlán sjóðsins á árinu nema rúmum 53,7 milljörðum samanborið við 55,8 milljarða á fyrstu 10 mánuðum ársins 2007.

Meðalútlán almennra lána námu um 11,7 milljónum króna í október og jukust lítillega frá fyrra mánuði eða um 3,5%.

Heildarvelta íbúðabréfa í október nam rúmum 162 milljörðum króna og dróst saman um 40% frá fyrra mánuði. Heildarvelta bréfanna nemur um 2278 milljörðum króna það sem af er árinu 2008.

Greiðslur Íbúðalánasjóðs námu tæplega 5,7 milljörðum króna í október og voru afborganir íbúðabréfa stærsti hluti þeirra eða ríflega 5,3 milljarðar króna.

Sjá nánar á vef Íbúðalánasjóðs.