Heildarútlán Íbúðalánasjóðs námu um 2 milljörðum króna í nóvember, en þar af voru tæpir 1,9 milljarðar króna vegna almennra lána. Samtals námu útlán á fyrstu 11 mánuðum ársins 2010 tæpum 25 milljörðum króna samanborið við rúmlega 28,5 milljarða á sama tímabili ársins 2009. Meðalútlán almennra lána voru um 8,3 milljónir króna í nóvember en um 9,6 milljónir í október síðastliðnum.

„Stjórn Íbúðalánasjóðs samþykkti 5. nóvember sl. breytingar á aðalmiðlarasamningnum sem var undirritaður 16. júní 2010 og tók gildi 1. júlí 2010, með þeim hætti að hámarksmunur kaup- og sölutilboða verði í flokki HFF24 0,50%, HFF34 0,65% og HFF44 0,80% og gildir þessi breyting út samningstímann. Með breytingunni var hámarksmunur kaup- og sölutilboða fyrir íbúðabréf aukinn, og var hún gerð til að auðvelta viðskiptavökum að sinna viðskiptavakt með íbúðabréf. Þann 15. nóvember hélt Íbúðalánasjóður sjötta útboð íbúðabréfa á árinu 2010. Alls bárust tilboð fyrir 8,29 milljarða kr. að nafnverði og ákveðið var að taka tilboðum samtals að nafnverði 5,295 milljarðar króna. Í HFF24 var tekið tilboðum fyrir 1,270 milljarða króna að nafnverði á meðalávöxtunarkröfunni 3,11% án þóknunar, 1,615 milljarða króna í HFF34 á meðalávöxtunarkröfunni 3,34% án þóknunar og 2,410 milljarða króna í HFF44 á meðalávöxtunarkröfunni 3,39% án þóknunar. Vegin heildarávöxtunarkrafa tekinna tilboða án þóknunar var 3,31% og 3,33% með þóknun. Útlánavextir sjóðsins héldust óbreyttir í kjölfar útboðsins og eru sem áður 4,50% með uppgreiðsluákvæði og 5,00% án uppgreiðsluákvæðis. Heildarvelta íbúðabréfa nam um 119,5 milljörðum króna í nóvember samanborið við um 70 milljarða í október. Það sem af er ári hefur heildarvelta íbúðabréfa numið rúmum 828 milljörðum króna miðað við um 864 milljarða á sama tímabili í fyrra. Greiðslur Íbúðalánasjóðs námu um 3,4 milljörðum króna í nóvember, en þær voru að mestu vegna aukaútdráttar húsbréfa. Uppgreiðslur lána Íbúðalánasjóðs í nóvember námu um 2,3 milljörðum króna,“ segir í tilkynningu frá Íbúðalánasjóði.