Íbúðalánasjóður lækkaði útlánsvexti sína úr 5,0% í 4,9% í dag, í kjölfarið á útboði á íbúðabréfum sem fram fór í gær. ?Líklegt er að vaxtalækkunin ýti frekar undir þá endurlífgun húsnæðismarkaðarins sem birst hefur í líflegum viðskiptum og verðhækkunum á fasteignum að undanförnu. Þróun húsnæðismarkaðarins skiptir miklu máli fyrir þróun verðbólgu vegna þungs vægis húsnæðis í neysluverðsvísitölunni og gegnum auðsáhrif á neytendur,? segir greiningardeild Kaupþings.

?Vaxtalækkun á íbúðalánum við núverandi aðstæður í efnahagslífinu er afar óæskileg okkar mati,? segir greiningardeild Landsbankans. ?Svo virðist sem fasteignamarkaðurinn sé að taka við sé á nýjan leik en fasteignaverð hefur farið hækkandi á síðustu mánuðum eftir að hafa farið lækkandi eða staðið í stað um nokkurt skeið. Þessi þróun á fasteignamarkaði hægir á nauðsynlegri aðlögun og er að okkar mati ein helsta ógnunin við að viðunandi jafnvægi nái að myndast í íslensku efnahagslífi,? segir hún.

Greiningardeild Landsbankans segir að með því að lækka vexti við núverandi aðstæður eru stjórnendur ÍLS að senda þau skilaboð inn á markaðinn að tilburðir Seðlabankans til að hækka vaxtastigið í landinu séu ekki líklegir til árangurs. ?Eðlileg viðbrögð Seðlabankans við þessar aðstæður væru því að hækka stýrivexti enda hefur hann gefið mjög skýrt til kynna að þörf sé að ströngu aðhaldi í peningamálum við núverandi aðstæður í hagkerfinu. Í ljósi þróunar á fasteignamarkaði og vaxtalækkunar ÍLS er slíkt aðhald væntanlega enn brýnna,? segir hún.