Íbúðalánasjóður hefur ákveðið að hafa vexti íbúðalána óbreytta. Þetta var ákveðið eftir að 3. áfanga útboðs íbúðabréfa lauk. Alls bárust tilboð að nafnverði 25 milljarða króna og í frétt frá Íbúðalánasjóði segir að ákveðið hafi verið að taka tilboðum alls að nafnverði 6,4 milljarða.Vegin heildarávöxtunarkrafa tekinna tilboða í útboðinu með þóknun er 4,30%.

Vaxtaákvörðun Íbúðalánasjóðs byggir á ávöxtunarkröfu í útboði íbúðabréfa sem haldið var 8. júní, ásamt vegnum fjármagnskostnaði uppgreiðslna ÍLS-veðbréfa. Vegnir vextir í útboði íbúðabréfa og uppgreiddra ÍLS-veðbréfa er 4,24%. Vaxtaálag vegna rekstrar, 0,15%, varasjóðs, 0,20%, og uppgreiðsluáhættu, 0,25%, samtals 0,60%.

Með reglugerð er Íbúðalánasjóði heimilt að bjóða viðskiptavinum sínum að taka íbúðalán með því að greiða sérstakt uppgreiðsluálag. Stjórn Íbúðalánasjóðs hefur því ákveðið að bjóða viðskiptavinum sjóðsins einnig að taka íbúðalán með sérstöku uppgreiðsluálagi. Verða slík íbúðalán boðin með 0,25% lægri vöxtum en vextir hefðbundinna lána, þ.e. 4,60%.