Gera má ráð fyrir að afskriftir Íbúðalánasjóðs vegna útlána verði í sögulegu hámarki næstu eitt til þrjú árin, í samræmi við spár um framvindu efnahagsmála. Sjóðurinn hefur í vinnslu viðskipta- og rekstraráætlun í tengslum við samkomulag stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins en niðurstöður þeirrar vinnu munu liggja fyrir ekki seinna en í árslok.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í svari félags- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Guðlaugs Þórs Guðlaugssonar alþingismanns um stöðu Íbúðalánasjóðs.

Í svarinu kemur fram að áætlað er að íbúðir í eigu sjóðsins verði um 1.100 talsins í árslok. Þær eru nú 822 og hefur fjölgað um 537 á tímabilinu janúar-ágúst 2010. Í fyrra eignaðist sjóðurinn alls 321 íbúð.