Um 40 íbúar í Nýja-Álasundi á Svalbarða prísa sig nú sæla eftir að hafa fengið samband við umheiminn á ný að sögn Svaldbardposten . Nýja-Álasund er sannarlega á hjara veraldar og þar ríkir nú kolniða myrkur allan sólarhringinn. Það var því afar bagalegt þegar allt Internet og sjónvarpssamband datt þar út 18. desember. Varð þorpið þá svo gott sem sambandslaust við umheiminn og eina sambandið var í gegnum Iridium gervihnattasíma. Ekki bætti úr skák að rafall í rafstöð bæjarins brann yfir á jóladag og olli rafmagnsleysi um tíma.

Klukkan 23 í gærkvöldi komust viðgerðarmenn með þyrlu að fjarskiptasendum í Kóngsvegarskarði í 900 metra hæð yfir sjó til að gera við senditæki. Það var þó ekki heiglum hent að lenda þar í kolsvarta myrkri mitt á milli tveggja jökla. Staðurinn er miðsvæðis á milli Nýja-Álasunds og Longyearbyen sem er höfuðstaður Norðmanna á Svalbarða. Tókst viðgerðarmönnum að koma sambandi á að nýju um miðnættið.

Roger Jakobsen í Nýja- Álasundi sagði í samtali við Svalbardposten að mikil gleði ríkti á meðal 40 íbúa staðarins yfir að vera aftur komnir í samband við umheiminn.