Tæplega 85% íbúa á höfuðborgarsvæðinu eru mjög jákvæð eða frekar jákvæð gagnvart ferðamönnum í borginni. Þetta kemur fram í niðurstöðum viðhorfskönnunar sem lögð var fyrir íbúa í öllum póstnúmerum á höfuðborgarsvæðinu 19. til 30. mars síðastliðinn. Könnunin er liður í vinnu við endurskoðun á aðgerðaáætlun ferðamálastefnu Reykjavíkurborgar til ársins 2020 sem nú stendur yfir.

Aðeins 2,3% íbúa á höfuðborgarsvæðinu segjast vera neikvæð gagnvart ferðamönnum á höfuðborgarsvæðinu, þar af segjast 2% fremur neikvæð og 0,3% mjög neikvæð. Þetta hlutfall er 3,1% í póstnúmerinu 101 í miðborg Reykjavíkur þar sem ferðamannafjöldinn er mestur.

Þá telja 91,8% íbúa að erlendir ferðamenn á höfuðborgarsvæðinu séu fremur eða mjög vinsamlegir í samskiptum við íbúa. Aðeins 0,7% telja þá óvinsamlega og 7,5% í meðallagi.

„Þetta eru góðar fréttir því þetta sýnir að viðhorf okkar íbúanna er mun jákvæðara gagnvart ferðamönnum en margir hafa ef til vill óttast miðað við umræðuna,” segir Einar Þór Bárðarson, forstöðumaður Höfuðborgarstofu.