Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, segir að allar áætlanir geri ráð fyrir því að tekjur af Helguvíkurhöfn muni standa undir fjárfestingunni til lengri tíma. „Við trúum því ennþá að þetta svæði sé það verðmætt að það muni til lengri tíma borga sig. En til skemmri tíma gerir það það klárlega ekki,“ segir hann.

Kjartan segir Reykjanesbæ ekki mega skuldsetja sig meira. „Ef Reykjanesbær væri ekki svona skuldsettur út af öðrum málum, þá gætum við tekið lán og fjárfest. En við megum það ekki, við getum það ekki. Þess vegna verður þetta fjármagn að koma einhvers staðar annars staðar frá. Það er heimild til þess í hafnarlögunum og það eru stór dæmi um það, að ríkið styrki hafnir í sama tilgangi. Þess vegna erum við að gera tilkall til þess að fá bara það sama.“

Menn voru stórhuga

„Mér finnst menn hafa verið stórhuga,“ segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, spurður um álit hans á rekstrarsögu Helguvíkursvæðisins. „Og ég skil það að mörgu leyti, því ef þessi áform hefðu öll gengið eftir þá værum við í ágætis málum, með álver og annað slíkt. En þegar menn tefla djarft þá verða þeir líka að vera tilbúnir til þess að taka því þegar hlutirnir ganga ekki upp. Því miður er það svolítið reyndin, þó það sé aðeins ljós í myrkrinu núna.“

Aðspurður segir Kjartan að honum sárni ekki neikvæð umræða um fjárhagsstöðu Reykjanesbæjar. „Margt af því sem sagt er er bara satt og rétt, margt af því er ekki satt og rétt. Það er eins og gengur og gerist, en mér sárnar umræðan ekki neitt.

Við höfum sjálf, íbúar hér á þessu svæði og stjórnendur komið okkur í þessa stöðu. Við verðum bara sjálf að koma okkur út úr henni. Það þarf bara að horfast í augu við það og taka það verkefni,“ segir Kjartan.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .