Heildar útsvarstekjur sveitarfélaganna námu 156,4 milljörðum í fyrra. Árið 2013 námu tekjurnar 148 milljörðum. Aukningin milli ára nemur 8,4 milljörðum eða tæpum 6%.

Af 156,4 milljarða útsvarstekjum greiddu sveitarfélögin 19,1 milljarð í jöfnunarsjóð sveitarfélaga í fyrra samanborið við 17,7 milljarða árið á undan. Framlag þeirra í sjóðinn jókst því um tæp 8% milli ára.

Áhugavert er að skoða framlag hvers íbúa í jöfnunarsjóðinn. Þegar það er gert kemur í ljós að íbúar Seltjarnarness borga mest eða ríflega 70 þúsund krónur hver. Næst á eftir koma íbúar Fjarðabyggðar, Garðabæjar og Vestmannaeyja. Íbúar Skagabyggðar borga minnst eða 39 þúsund hver.

útsvar á íbúa
útsvar á íbúa
Að meðaltali greiddu íbúar landsins 482 þúsund krónur hver í útsvar á síðasta ári. Íbúar Fjarðabyggðar tróna á toppnum þegar útsvar á hvern íbúa er reiknað. Þar borgar hver íbúi 564 þúsund í útsvar. Íbúar Seltjarnarness greiða næsthæsta útsvarið eða 548 þúsund, Garðbæingar eru í þriðja sæti með 530 þúsund og þar á eftir koma íbúar Skagastrandar með 526 þúsund krónur. Árið 2013 greiddu íbúar Vestmannaeyja hæsta útsvarið en nú eru þeir í fimmta sæti, með 524 þúsund krónur.
Nágrannasveitarfélag Skagastrandar, Skagabyggð, er hins vegar í neðsta sæti þegar útsvar á hvern íbúa er reiknað en þar borgar hver íbúi 322 þúsund krónur á ári í útsvar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .