Reykjavíkurborg og íbúar við Rituhóla hafa samið vegna eignatjóns borgarinnar á skógi fyrir neðan Rituhóla. Íbúar felldu fjölda trjáa þann 1. maí í fyrra í skógi borgarinnar án heimildar í Elliðaárdal við Rituhóla.

Samkomulagið felur meðal annars í sér að íbúarnir greiða borginni skaðabætur, auk þess sem þeir taka að sér fegrun og hreinsun svæðisins og endurplöntun trjáa og hafa eftirlit með umgengni á svæðinu í samvinnu við borgarstarfsmenn.

Reykavíkurborg mun í kjölfar greiðslunnar afturkalla kæru vegna málsins sem lögð var fram hjá Lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins og falla frá frekari bótakröfum  vegna meintra eignaspjalla. Samkomulagið, sem gildir í þrjú ár, felur í sér að sátt hefur náðst milli íbúa við Rituhóla og Reykjavíkurborgar vegna eignaspjalla íbúanna á skógi í eigu borgarinnar.