Fyrsta opinbera uppboðið í Zimbabwe þar sem mátti borga með öðru en gjaldmiðli landsins, Zimbabwe-dollara, var haldið á dögunum og fengust þar bílar gegn greiðslu inneignar fyrir bensínlítrum.

Hammer and Toungues Auctioneers heitir fyrirtækið sem fyrst bauð viðskiptavinum sínum að kaupa bíla og húsgögn gegn greiðslu í inneignarnótum fyrir bensíni. Á vefsíðu fyrirtækisins segir að eftir athugun hafi komið í ljós að ekkert í lögum Zimbabwe bannar sölu gegn greiðslu í inneignarnótum.

Samkvæmt opinberum tölum frá seðlabanka Zimbabwe er verðbólga þar í landi 2,2 milljón prósent. Aðrir telja hana vera á bilinu 10-15 milljón prósent.

Inneignarnóturnar sem ganga nú kaupum og sölum fást fyrir aðra gjaldmiðla en Zimbabwe-dollarann. Fyrirtækin sem selja nóturnar hófu sölu þeirra til að gera fólki sem býr utan Zimbabwe kleift að kaupa matvöru, farsímainneign og eldsneyti fyrir íbúa þar í landi.

Þetta kemur fram í frétt Bloomberg.