Í lok janúar námu heildarskuldir íslenskra heimila við innlánsstofnanir 325 mö.kr. og hafa því aukist um 144 ma.kr. eða sem nemur um 80% frá sama tíma í fyrra. Mesta aukningin er í verðtryggðum skuldabréfum en undir þennan flokk falla meðal annars íbúðalán bankanna. Verðtryggð skuldabréf einstaklinga við innlánsstofnanir námu 214 mö.kr. í lok janúar og höfðu aukist um tæpa 125 ma.kr. frá fyrra ári. Heildarútlán íbúðalána bankanna eru nú kominn í um 140 ma.kr segir í Vegvísi Landsbankans.

Þar er bent á að stór hluti aukningarinnar eða um 95% hennar átti sér stað eftir að tilkynnt var um innkomu banka og sparisjóða á íbúðalánamarkaðinn. Má því að mestu leyti rekja skuldaaukninguna til tilfærslu skulda frá Íbúðalánasjóði (ÍLS) til banka og sparisjóða í kjölfar innkomu þeirra inn á íbúðalánamarkaðinn í lok ágúst síðastliðnum. Alls höfðu bankarnir lánað fyrir 120 ma.kr. í lok árs 2004 en samkvæmt tölum Seðlabankans jukust verðtryggð skuldabréf innlánsstofnanna um 17 ma.kr. í janúar. Að því gefnu er heildarútlán íbúðalána bankanna nú kominn í um 140 ma.kr.

Aukning verðtryggðra skuldabréfalána í janúar er þó minni en hún hefur verið undanfarna þrjá mánuði enda nam mánaðaraukningin að meðaltali um 30 mö.kr. á tímabilinu október til desember 2004. Þessi þróun gefur vísbendingu um að mögulega sé farið að hægja á endurfjármögnun eldri lána ÍLS og lánveitingarnar komnar í meira jafnvægi.

Byggt á Vegvísi Landsbankans.