Samkvæmt uppgjöri Íbúðalánasjóðs nam hagnaður af rekstri sjóðsins á fyrri hluta ársins 2.535 milljónum króna samanborið við 576 milljóna króna hagnað á sama tímabili í fyrra.

Eigið fé sjóðsins í júnílok nam 16.430 milljónum eða 3,17% af heildareignum sjóðsins. Eiginfjárhlutfall sjóðsins 6,5%. Langtímamarkmið sjóðsins er að hlutfallið sé yfir 5,0%. Mikill hagnaður skýrist af verðbólguþróun og jákvæðum mun verðtryggðra eigna umfram skuldir.

Uppgreiðslur lána sjóðsins hafa lækkað umtalsvert á tímabilinu og námu 25.064 milljónum en þær námu 128.055 milljónum allt árið 2005. Sjóðurinn nýtti hluta af þessum uppgreiðslum til nýrra lánveitinga, þá nýtti hann sér heimildir til aukaútdráttar húsbréfa og uppgreiðslu óhagstæðra lána.

Í tilkynningu Íbúðarlánasjóðs til Kauphallarinnar segir:

"Mikilvægt er að viðhalda ákveðnu jafnvægi í samsetningu lánsfjármagns og útlána sjóðsins. Til að tryggja það fylgir sjóðurinn áhættustýringareglum sem kveða á um að sjóðurinn lágmarki áhættu sína og stýri vaxta-og útlánaáhættu innan ákveðinna viðmiðunarmarka. Í því skyni gerir sjóðurinn bæði skammtíma- og langtímasamninga við innlendar lánastofnanir um ávöxtun á fjármunum sínum til að jafna greiðsluflæði og meðallíftíma milli eigna og skulda sjóðsins. Þá hefur sjóðurinn í samræmi við áhættu- og fjárstýringarstefnu sína gert afleiðusamninga til að draga úr vaxtaáhættu sinni vegna uppgreiðslu lána".