Stærri íbúðir í Kaupmannnahöfn hafa lækkað í verði um 10% frá fyrsta til annars ársfjórðungs samkvæmt Troels Theill Eriksen, yfirmanni hjá greiningardeild Nordea-bankans, og er þá miðað við 125 til 199 fermetra stórar íbúðir á svæðinu. Um hríð hefur mikinn þrýstingur til lækkunar verið á húsnæðisverð í borginni við sundin en hingað til hefur verð smærri íbúða gefið eftir. Nú hefur hins vegar verð stærri eigna látið undan.

80 fermetra íbúð lækkar um 10 milljónir

Ef farið er til þriðja ársfjórðungs 2006 hefur verð á eignaríbúðum lækkað um 22% samkvæmt greiningu Eriksens, sem skýrist m.a. af stórauknu framboði eigna samtímis og lítil hreyfing er á þessum markaði. Telur hann að viðskipti með íbúðir í borginni séu um þessar mundir að ná jafnvægi með um 20% minni viðskipti en hefur verið að meðaltali í sögunni.

Í Börsen kemur fram að meðalverð á 80 fermetraíbúð í Kaupmannahöfn hefur lækkað frá 2,7 milljón danskra, eða rúmlega 45 milljónir íslenskra , í um 2,05 milljónir, eða um 34,2 milljónir íslenskra, þ.e. um yfir tíu milljónir króna.