Fasteignaverð er tekið að falla í Eistlandi í kjölfar gríðarlegrar uppsveiflu undanfarin ár, ef marka má tölur Global Property Guide (GPG). Verð á tveggja herbergja íbúðum í höfuðborginni Tallinn féll um 5,47% á fyrsta ársfjórðungi þessa árs, samkvæmt opinberum tölum og hefur haldið áfram að falla síðan. Er talið að verð hafi að jafnaði fallið um að minnsta kosti 10% það sem af er ári. Ekki er þó talið að alvarlegt hrun sé fram undan því enn megi búast við hagvexti í landinu þó verulega hafi hægt á.

Þetta er athyglisvert í ljósi þeirra miklu og hröðu uppbyggingar og þenslu sem verið hefur í Eistlandi og öðrum Eystrasaltslöndum á undanförnum árum. Mikil spákaupmennska hefur verið ríkjandi á fasteignamarkaði og um tíma seldist nær allt sem boðið var til sölu. Grannt er fylgst með þróuninni í Eistlandi, þar sem hún er talin vera undanfari þess sem búast megi við í nágrannaríkjunum, Lettlandi og Liháen. Er sömu þróunar þegar farið að gæta í Lettlandi þar sem fasteignaverð er nú byrjað að falla samkvæmt tölum GPG.

Sem dæmi um sveifluna hækkaði meðalverð á tveggja herbergja íbúðum í Tallinn um 28,64% árið 2006, og hvorki meira né minna en 56,69% árið 2005. Sögur fóru af spákaupmönnum sem náðu að margfalda höfuðstólinn í fasteignabraski á mjög skömmum tíma. Erlendir fjárfestar, frá Bretlandi, Þýskalandi, Finnlandi og öðrum Norðurlöndum og víðar hafa sótt stíft inn á þennan markað, enda litlar takmarkanir á slíkum viðskiptum í Eistlandi. Þá er umsýslukostnaður vegna fasteignakaupa líka frekar lítill, eða 2% til 4% eftir stærð íbúða.

Lesið um húsnæðisverð í Viðskiptablaðinu.