Verð á íbúðahúsnæði í helstu borgum Bandaríkjanna hækkaði í fyrsta sinn í nær þrjú ár í maí sl. Þetta er meðal vísbendinga um að botninum kunni að vera náð á íbúðamarkaðnum og í hagkerfinu í heild, að því er segir í frétt WSJ. Því er þó bætt við að vaxandi atvinnuleysi og varkárir neytendur geri það að verkum að ólíklegt sé að verulegur bati sé á næsta leiti.

Það er Case-Shiller íbúðavísitala Standard & Poor's, sem mælir verð í 20 stórborgum, sem sýndi hækkunina, en hún nam 0,5% í maí frá fyrri mánuði. Þá hafði hún lækkað í 34 mánuði í röð.