Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu mældist 306,5 stig í október sl. og hækkaði um 0,9% á milli mánaða samkvæmt tölum frá Þjóðskrá Íslands

Verð á íbúðarhúsnæði er þannig á svipuðu róli og það var um mitt sumar eftir að hafa lækkað örlítið fyrr í haust en

Á myndinni hér til hliðar má sjá þróun vísitölu íbúðaverðs síðastliðin þrjú ár. Þar sést hvernig vísitalan hefur lækkað umtalsvert síðan í janúar 2008 þó vissulega hafi hún tekið sveig upp á við frá þeim tíma, t.d. í ágúst í fyrra og nú fyrr í vor. Þannig hefur íbúðaverð lækkað um 14,2% á föstu verðlagi síðan í janúar 2008 þegar vísitalan náði hámarki (357,4 stigum).

Á fyrstu mánuðum þessa árs, þ.e. fram að maí, hafði hins vegar verið lítil breyting á íbúðaverði eins og sjá má á myndinni. Íbúðaverð hefur þó hækkað um 1,1% frá byrjun þessa árs.

Íbúðaverð hækkaði hins vegar töluvert í júní sl. eða um 1,9% á milli mánaða en lækkaði aftur um  1,3% í júlí sem var mesta lækkun á milli mánaða frá því í desember sl.

Síðastliðna 3 mánuði hefur vísitala íbúðaverðs hækkað um 1,2%, síðastliðna 6 mánuði hefur hún hækkað um 1,2% en lækkun síðastliðna 12 mánuði nemur 2,3%.

Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu sýnir breytingar á vegnu meðaltali fermetraverðs. Íbúðarhúsnæði er skipt í flokka eftir stærð og hvort það telst fjölbýli eða sérbýli. Reiknað er meðalfermetraverð fyrir 9 flokka íbúðarhúsnæðis. Niðurstaðan er vegin með hlutdeild viðkomandi flokks í heildarverðmæti á markaði miðað við undangengna 24 mánuði.